Fréttir og viðburðir
Fréttir og viðburðir

Unnið að viðhaldi þjóðveldisbæjarins

8.9.2011

Unnið hefur verið að yfirgripsmiklu viðhaldi á þjóðveldisbænum í Þjórsárdal í sumar.

Við gerð þjóðveldisbæjar hafa einkum eftirfarandi sjónarmið verið höfð að leiðarljósi:

  1. Að byggja eins nákvæmlega og unnt var á leifum bæjarrústanna í Stöng og reyna með því að gefa trúverðuga mynd af húsakynnum íslenskra höfðingja á þjóðveldisöld.
  2. Að gera bæinn að eins konar safni sýnishorna um verkmennt, sem með öruggri vissu hefur verið iðkuð á þjóðveldisöld og eitthvað lengur. Þar sem því sleppir var stuðst við eigin hugsmíðar líkt og gert er í heimildaskáldsögu.
  3. Í þriðja lagi átti tilgátuhúsið að sýna fram á að húsakynni fornmanna voru ekki ómerkilegir moldarkofar, heldur vandaðar og glæsilegar byggingar.

Í sumar hefur staðið yfir rif og endurbygging á austurstafni bæjarins. Talið er að upprunaleg hleðsluaðferð bæjarins á Stöng hafi verið strengjatorf og var sú hleðsluaðferð notuð við byggingu skálans. Um 1.300 metrar af streng voru skornir í endurbyggingu veggjarins og einnig hefur verið lagt nýtt torf á þak bæjarins.

Endurbygging á veggjum búrs og kamars stendur nú yfir. Við byggingu bæjarins var ákveðið að nota klömbruhnaus í byggingu þeirra til að gefa gestum sýnishorn af því verklagi sem ásamt strengjatorfi tíðkaðist hér á landi frá landsnámsöld. Búið er að skera um 800 klömbruhnausa til hleðslu veggjanna en einnig verður lagt nýtt torf á þak kvennastofu, búrs og kamars auk þess sem gerðar verða lagfæringar á kirkjunni við Þjóðveldisbæinn.

Verktaki er Dugull ehf. Verkinu stýrir Víglundur Kristjánsson hleðslumaður.

Þjóðveldisbænum er ætlað að vera sýnilegur minnisvarði um þjóðveldistímann á Íslandi. Að auki vitnar þjóðveldisbærinn um hýbýli og lifnaðarhætti Íslendingaá þjóðveldistímanum til fróðleiks og fræðslu fyrir þá er hann heimsækja.

Í sumar sóttu 6777 gestir Þjóðveldisbæinn heim en bærinn er opinn frá 1. júní til 31. ágúst.

Til baka Senda

Samstarfsaðilar

  • Stjórnarráðið
  • Skeiða- og Gnúpverjahreppur
  • Þjóðminjasafnið
  • LandsvirkjunÚtlit síðu:

Tungumál


Þetta vefsvæði byggir á Eplica