Gaukur Trandilsson kvikmyndaður í þjóðveldisbænum
Ungmennafélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps setti á svið atriði úr Gauks sögu Trandilssonar.
Fyrir helgi var á ferðinni kvikmyndatökulið í þjóðveldisbænum í Þjórsárdal. Tilgangur heimsóknarinnar var sá að kvikmynda senur úr Gauks sögu Trandilssonar.
Kvikmyndun á Gauks sögu í þjóðveldisbænum er komin til vegna uppsetningar leikdeildar Ungmennafélags Skeiða- og Gnúpverjahrepps (UMFG) á leikritinu Gaukssögu. Leikritið er eftir Vilborgu Halldórsdóttur en í því er fjallað um Gauk Trandilsson frá Stöng og Þuríði Arngeirsdóttur frá Melrakkasléttu. Atriðin sem tekin voru upp í þjóðveldisbænum á að nota í leiksýningunni og til kynningar á leikritinu. Einnig verður brot úr leikgerðinni sýnt í þættinum "Landinn" sem RÚV mun sýna bráðlega.
Þær upplýsingar sem til eru um Gauk eru af skornum skammti og hafa aðeins varðveist örfáar frásagnir um þennan mann sem á að hafa búið á bænum Stöng og var veginn af Ásgrími Elliða-Grímssyni, fósturbróður Gauks við Gaukshöfða. Sagan segir að Gaukur hafi fíflað húsfreyjuna á Steinastöðum, sem var skyld Ásgrími.
Talið er að Gauks saga Trandilssonar hafi verið til í handriti, en hún er nú glötuð. Í Njálu má finna tvær setningar um Gauk, í rúnaristu í Maeshow á Orkneyjum er minnst á Gauk og Haukur Valdísarson orti um hann í Íslendingadrápu. Vilborg leitar einnig fanga í Vikivakastefinu "Öldin var önnur ...".
Úr þessum fáeinu heimildum hefur orðið til leiksýningin Gaukssaga sem frumsýnd verður í Árnesi 26. mars. Sýningarnar á leikritinu verða allar helgar til 17. apríl.
Í verkinu er brugðið upp brotum frá gullöld Dalsins sem örva ýmundunarafl þeirra sem á að horfa á og dýpka skilning á því samfélagi sem blómstraði undir því öskulagi sem nú þekur þennan fagra dal.
Nánari upplýsingar um leikritið og sýningar má fá á vef leikritsins gaukssaga.123.is