Byggingar
Þróun íslenska torfbæjarins

Þróun íslenska torfbæjarins

Elsta og algengasta byggingarefni sem notað var í íslenskar byggingar í 1100 ár nefnist torf. Þetta byggingarefni er afar forgengilegt og er Ísland eina landið á Norðurlöndum sem hefur varðveitt þá byggingartækni sem þarf til að reisa torfhús.

Aðferðir torfhleðslu hafa að öllum líkindum verið þær sömu frá upphafi landnáms til okkar daga en arkitektúr húsanna hefur þó breyst umtalsvert.

Í fornsögum eru íveruhús söguhetjanna yfirleitt kölluð skálar eða eldaskálar. Í þeim unnu menn, mötuðust og sváfu undir sama þaki en ekki voru nein útihús tengd við skálana. Þessi húsagerð er vel þekkt á öllu Norður-Atlantshafssvæðinu á víkingaöld og er sú húsategund sem landnámsmennirnir fluttu með hingað til lands. Fjöldamargir skálar eru þekktir hér á landi og hafa fundist skálar í ýmsum stærðum, allt frá 10-12 m til 36 m að lengd. Hvort sem þeir eru stórir eða litlir er grunnmynd þeirra alltaf svipuð og auðþekkt.

  Grunnmynd af Grelutótt í Arnarfirði 

Grunnmynd og hugsanleg ásýnd Grelutóttar við Hrafnseyri í Arnarfirði

Fljótlega eftir að byggð tekur að festa hér á landi verður vart við breytingar á húsagerðinni. Breytingarnar birtast einkum í formi viðbygginga sem byrja að vaxa eins og litlir sprotar að húsabaki, fremur tilviljunarkenndir í fyrstu, en síðan með ákveðnara skipulagi. Segja má að með þessum viðbyggingum birtist fyrstu tilraunir landnámsmanna til þess að laga hús sín að nýjum aðstæðum og þörfum. Í fyrstu er aðeins einu húsi eða herbergi bætt við, en síðan bætast fleiri hús við skálann. Þar með er þróunarsaga íslenska torfbæjarins hafin.

Grunnmynd bæjarins að Stöng sýnir að húsaskipan hefur tekið breytingum og fengið ákveðnara form. Megin breytingin felst í því að við enda skálans hefur verið byggð stofa, og er innangengt á milli. Að húsabaki eru tvær viðbygginar.

  Grunnmynd af Stöng í Þjórsárdal 

Grunnmynd bæjarins Stöng í Þjórsárdal

Eftir að Stöng fer í eyði fyrir um það bil 900 árum er rúmlega tveggja alda eyða í fornfræðilegum heimildum um þróun torfbæjarins en næsta vísbending kemur frá bænum Gróf í Öræfum. Við samanburð við Stöng sést að hér er komin til sögunnar ný bæjargerð. Það sem fyrst vekur athygli er einkum tvennt. Annars vegar, að inngangurinn í húsið hefur verið fluttur inn að miðju og hann skiptir húsinu í tvo hluta. Hins vegar, að eldhúsi og skemmu hefur verið bætt hvoru við sinn enda hússins. Baðstofa er komin við enda gangsins og þar inni er ofn en eldstæði er ekki lengur í skála. Þessi breyting í húsagerð, sem líklega hefur hafist um 1300 má e.t.v. rekja til breyttra þjóðfélagshátta, kólnandi veðurfars og vaxandi skorts á eldsneyti.

Grunnmund af Gröf í Öræfasveit

Grunnmynd af Gröf í Öræfasveit

Þótt útlit íslenska gangabæjarins hafi í aðalatriðum haldist það sama allt frá því að gerðin sést fyrst í Gröf og fram á síðustu öld, er fjarri því að kyrrstaða ríki í húsaskipan innanbæjar. Notkun breytist á tímabilinu á nokkrum helstu vistarverum bæjarins, skála, stofu og baðstofu. Nýlegar rannsóknir sýna einnig að notkun og útlit einstakra herbergja breyttist mjög oft. Virðist herbergjum hafa verið breytt eða þeim fengið nýtt hlutverk eftir þörfum á hverjum tíma. Meginbreytingin felst í því að nær allt heimilisfólk hefur flutt rúm sín inn í baðstofuna og er hún nú orðin aðalíveruhúsið á bænum. Staðurinn þar sem fólk starfar, matast og sefur. Ástæðan fyrir þessum flutningi er vafalaust eldiviðarskortur og kuldi. Baðstofan lá hæst og innst í bænum og var þar af leiðandi hlýjasta vistarveran.

Grunnmynd af Glaumbæ í Skagafirði árið 1936


Á 18. öld eru gangabæir orðnir fremur óhentug híbýli. Eftir að heimilisfólk fluttist úr skálum inn í baðstofuna standa framhúsin eftir lítið notuð og bæjargöngin þykja heldur löng. Kemur þá fram á sjónarsviðið ný húsagerð, burstabærinn sem þótti boða mikla nýjung. Húsunum er nú raðað hlið við hlið og þau snúa göflunum fram á hlað. Á 19. öld verður burstabærinn nær allsráðandi og ryður að mestu úr vegi gamla gangabænum. Fjósbaðstofan hafði einnig komið til sögunnar. Þar voru gripahús sett undir baðstofuna og hitinn frá húsdýrunum nýttur til upphitunar. Fjósbaðstofur þóttu hlýjar og sættu menn sig því við slæmt loftið þar inni, frekar en að hírast í kulda.

  Dæmi um fjósabaðstofur 


Til baka Senda

Samstarfsaðilar

  • Stjórnarráðið
  • Skeiða- og Gnúpverjahreppur
  • Þjóðminjasafnið
  • LandsvirkjunÚtlit síðu:

Tungumál


Þetta vefsvæði byggir á Eplica