Kirkjan
Torfklædda stafkirkjan við Þjóðveldisbæinn er tilgátuhús af dæmigerðu íslensku bænhúsi frá miðöldum.
Að stofni til er húsið byggt á grunni lítillar kirkju eða bænhúss sem kom í ljós við fornleifarannsóknir á Stöng í Þjórsárdal á árunum 1986 til 1988.
Framkirkjan er 3,2 m á lengd og 2,7 m á breidd. Kórinn er undir minna formi en framkirkjan og er 1,6 m á breidd og 1,4 m á lengd. Framhlið hússins er mótuð eftir útskurðarmynd á Valþjófsstaðahurðinni, sem er frá um 1200, og er elsta þekkta mynd af íslenskri kirkju.
Hlífðarveggir úr torfi og grjóti voru á þrjá vegu utan um tréverkið og líklega var torfþak á húsinu. Kirkjurústin á Stöng er talin vera frá 11. öld. Kirkjan var upphaflega smíðuð og sett upp í Þjóðminjasafni Íslands vorið 1997, fyrir kirkjulistasýninguna „Miðaldakirkjan í Noregi og á Íslandi, samstæður og andstæður", sem Þjóðminjasafn Íslands og Norsk institutt for kulturminneforskning stóðu fyrir.
Tilgátukirkjan við þjóðveldisbæinn (Mynd H.H.)
Árið 2000 var kirkjan flutt austur í Þjórsárdal og endurreist við Þjóðveldisbæinn. Biskup Íslands herra Karl Sigurbjörnsson vígði hana til notkunar við hátíðlega athöfn 21. júlí árið 2000. Vígsluhátíðin var liður í hátíðarhöldum í tilefni þúsund ára afmælis kristni á Íslandi.
Unnið við hleðslu kirkjunnar
Eftirfarandi aðilar komu að smíði kirkjunnar:
- Arkitekt: Hjörleifur Stefánsson
- Smiðir: Gunnar Bjarnason og Leifur Ebenezerson
- Vegghleðslur: Helgi Sigurðsson
- Kostun: Forsætisráðuneytið, Landsvirkjun og Gnúpverjahreppur

Frá vígslu kirkjunnar árið 2000. Úlfar Guðmundsson prófastur, sr. Axel Árnason Njarðvík og
Sigurður Sigurðsson vígslubiskup ganga til kirkju. Í bakgrunni má m.a. sjá
Sigríði Dúnu Kristmundsdóttir og þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra Sólveigu Pétursdóttir.