Byggingar
Fyrirmyndin - Stöng

Fyrirmyndin - Stöng í Þjórsárdal

Þjóðveldisbærinn er tilgátuhús og er fyrirmynd hans bærinn Stöng í Þjórsárdal

Árið 1104 gaus Hekla í fyrsta sinn í sögu Íslands. Gosið lagði m.a. í eyði heilt byggðarlag í Þjórsárdal í Árnessýslu, vart færri en 20 bæi.

Rúmum átta öldum síðar nánar tiltekið árið 1939 grófu norrænir fornleifafræðingar upp nokkra af þessum bæjum. Á einum stað kom undan þykku vikurlagi fágætlega vel varðveitt rúst af fornu býli, sem vart á sinn líka á hinu norræna menningarsvæði. Þar hét fyrrum Stöng.

Stangarbærinn virðist hafa verið tiltölulega nýreistur þegar Heklugosið lagði hann í eyði, því að undir honum eru leifar af eldri skála. Grunnmynd bæjarins að Stöng sýnir að húsaskipan hefur nú tekið nýjum breytingum og fengið ákveðnara form.

Megin breytingin felst í því að við enda skálans hefur verið byggð stofa, og er innangengt á milli. Að húsbaki eru tvær viðbyggingar sem liggja örlítið skáhallt út frá skálanum. Annað bakhýsið er beint á móti inngangi. Þar benda tvær rennur meðfram veggjum einna helst til þess að þar hafi verið stór kamar. Við hinn enda skálans er annað nokkru stærra bakhús, búrið, þar sem staðið höfðu stór jarðkeröld eða sáir og í var geymdur súrmatur.

Við fornleifarannsóknirnar á Stöng árið 1939 fundust auk bæjarhúsanna meðal annars leifar af fjósi, hlöðu og smiðju. Við síðari rannsóknir fundust einnig leifar af lítilli kirkju og kirkjugarði.

  Uppgröftur Stangar árið 1939 
Frá fornleifarannsóknum á Stöng árið 1939

Gaukur Trandilsson

Sagan segir að á Stöng hafi Gaukur Trandilsson búið. Hann var bæði auðugur og vel ættaður maður. Gaukur var afkomandi Þorbjarnar laxakarls í þriðja lið og að sögn kappi hinn mesti. Hann hefur að líkindum verið kvennaljómi en gömul vísa er varðveitt um ástir Gauks og húsfreyjunnar á Steinastöðum í Þjórsárdal, svohljóðandi:

Þá var öldin önnur,
er Gaukur bjó á Stöng.
Þá var ei til Steinastaða
leiðin löng.

Þetta ástarævintýri hefur þó sennilega orðið honum að fjörtjóni en samkvæmt Njálssögu féll Gaukur fyrir hendi Ásgríms Elliða-Grímssonar fóstbróður síns, að líkindum fyrir að hafa fíflað húsfreyjuna á Steinastöðum sem var einmitt skyld Ásgrími.

Til baka Senda

Samstarfsaðilar

  • Stjórnarráðið
  • Skeiða- og Gnúpverjahreppur
  • Þjóðminjasafnið
  • LandsvirkjunÚtlit síðu:

Tungumál


Þetta vefsvæði byggir á Eplica