Byggingar
Bærinn

Þjóðveldisbærinn

Í tilefni af ellefuhundruð ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 var ákveðið að gera tilraun til þess að endurreisa stórbýli frá þjóðveldisöld. Hinar vel varðveittu húsaleifar á Stöng þóttu vel til þess fallnar að byggja tilgátuhúsið á.

Byrjað var á byggingu þjóðveldisbæjarins árið 1974 og lauk verkinu þremur árum síðar. Húsið var vígt þann 24. júní 1977.

Eftirtaldir aðilar komu að byggingu bæjarins. Hörður Ágústsson húsasmíðameistari, Gunnar Bjarnason smiður og Stefán Friðriksson torfhleðslumaður.

Við gerð þjóðveldisbæjar hafa einkum eftirfarandi sjónarmið verið höfð að leiðarljósi:

 1. Að byggja eins nákvæmlega og unnt var á leifum bæjarrústanna í Stöng og reyna með því að gefa trúverðuga mynd af húsakynnum íslenskra höfðingja á þjóðveldisöld.
 2. Að gera bæinn að eins konar safni sýnishorna um verkmennt, sem með öruggri vissu hefur verið iðkuð á þjóðveldisöld og eitthvað lengur. Þar sem því sleppir var stuðst við eigin hugsmíðar líkt og gert er í heimildaskáldsögu.
 3. Í þriðja lagi átti tilgátuhúsið að sýna fram á að húsakynni fornmanna voru ekki ómerkilegir moldarkofar, heldur vandaðar og glæsilegar byggingar.

Farið var í einu og öllu eftir stærð, legu og lagi húsarústarinnar á Stöng. Einnig var höfð náin hliðsjón af allri
innréttingu að svo miklu leyti sem rústirnar segja til um það efni, svo sem um stærð og legu palla, bekkja, seta,
klefa, dyra og stórkeralda í jörðu.

Grunnmynd þjóðveldisbæjarins

Grunnmynd þjóðveldisbæjarins

Timbursmíð þjóðveldisbæjar

Timbursmíðin í Stöng sagði einnig að nokkru leyti til sín. Við uppgröftinn fundust víða tréleifar, sem sýndu hvar veggþil, skilrúmsþil bekkjar- og setstokkar höfðu verið. Í sumum tilfellum var hægt að fara nærri um efnisþykkt.

Þá sáust greinileg merki um gerð botnsins í einu keraldanna í búri, för eftir stafaenda og oka, höggvin ofan í
móhellu. Þar sem upplýsingum af Stangarbænum sleppir er stuðst við ferns konar heimildir.

 1. Leifar af fornri íslenskri trésmíð, sem enn má finna víða um land.
 2. Byggingarleifar frá byggðum Grænlendinga hinna fornu.
 3. Húsalýsingar í fornritum og úttektum.
 4. Fornt norrænt stafverk, bæði það sem enn stendur og grafið hefur verið úr jörðu.

Hurðirnar fyrir búri og kamri eru eftirlíkingar af hurðum, sem fundust heilar á Grænlandi. Um gerð skálahurðar var farið eftir smíðalagi Valþjófsstaðahurðarinnar en hún er talin vera frá því um 1200.

Borðin og borðstólarnir eru sniðin eftir elstu gerðum norskum frá því um 1250. Þannig mætti halda áfram. Stoðarsteinar, gólfhellur, eldstæði, steinþró í anddyri og hellur undir kvarnarstokk, hefur verið gert með eins líku lagi frummyndarinnar og unnt var.

Sama er að segja um gerð útveggja, með nokkrum frávikum þó. Af rústunum að dæma hefur strengjatorf verið notað í skála og stofu. Þannig er það einnig í þjóðveldisbæ. Hins vegar var klömbruhnaus notaður í búr og kamar til þess að gefa sýnishorn af veggjaefni og hleðslulagi, sem vitað er að tíðkaðist hér á landi frá fyrstu tíð.

 Þrívíddarmynd af timburverki Þjóðveldisbæjarins
Þrívíddarmynd af timburverki þjóðveldisbæjarins

Til baka Senda

Samstarfsaðilar

 • Stjórnarráðið
 • Skeiða- og Gnúpverjahreppur
 • Þjóðminjasafnið
 • LandsvirkjunÚtlit síðu:

Tungumál


Þetta vefsvæði byggir á Eplica